Um hugmyndina:
Upphaflega hugmyndin að verkinu vaknaði þegar ég keyrði Ísafjarðardjúp í júní 2023, á leið í strandhreinsun á Hornströndum og var alveg gáttuð yfir þessari rauðu rönd í berginu sem sást víða þar sem sprengt hafði verið fyrir vegagerð. Ég fór að kynna mér málin og komst að því að rauða röndin stafar af því að á Íslandi ríkti hitabeltisloftslag fyrir um 6-7 milljónum árum þar sem pálma- og bananatré og annar hitabeltisgróður þakti landið en við miklar hamfarir oxideraðist þetta efni og steingerðist eða sameinaðist gosefnum og fékk þennan rauða lit.
Hop jökulsins gerir rauðu röndina sýnilega:
Nálægð mín við jökulinn, stórkostlegar steindir og ís í landvörslunni í Vatnajökulsþjóðgarði sumarið 2023 hafði mikil og sterk áhrif á mig svo ég var að vinna úr því að jökullinn hafi lagst yfir allt, hopað og vaxið á víxl en sé svo að hopa aftur. Það merkilega er að rauða röndin sést núna vel á Suðausturlandi, t.d. við Þröng upp að Breiðamerkurjökli en þar hefur jökullinn hopað gríðarlega og rauða röndin er nú orðin vel sýnileg í berginu við rætur Fellsfjalls.