Grunnstoð þessarar sýningar er samnefnd bók mín um Ámunda Jónsson og lífsverk hans. Hér í fordyri þeirrar byggingar sem í hugum margra er nú höfuðkirkja landsins hef ég einungis reynt að kalla fram þá tilfinningu sem vegferðin um þetta verkefni hefur skilið eftir í huga mínum. Hér er ég ekki að segja þá flóknu sögu sem bókinni er ætlað, heldur má segja að úrvinnsla mín í málverkunum sé mikil einföldun á þeim orsökum og afleiðingum sem ég sé í sögunni og tilgangi þeirra skilaboða sem trúin hefur nýtt sér með táknmáli og samlíkingum gegnum tíðina. Allt virðist mér þetta nú ofur einfalt að skilja og furða mig á því hve málin hafa verið flækt og læst inni með dularlyklum sem enginn skilur lengur. Með því að einfalda og draga hlutina nær okkur leitast ég við að kalla fram spegil okkar eigin lífs og skýra um leið táknmálið sem trúarbrögð miðla.
Um sýninguna og forsögu hennar:
Átjánda öldin hefur í hugum margra Íslendinga verið fjarlæg og hættuleg, sem tími afar dramatískra náttúruhamfara á Suðurlandi og eftirleiks þeirra, en einnig sem mikilvægs endurreisnarskeiðs og tilefnis til rannsókna á lífsháttum, og húsakosti landsmanna, ofan jarðar sem neðan. Áhugi á átjándu öldinni hefur verið að glæðast mjög á síðustu árum en mörgum spurningum er enn ósvarað. Ein þeirra hefur með þá myndlist að gera sem iðkuð var hér á land.
Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að fylgjast með rannsókn Guðrúnar A. Tryggvadóttur og Arndísar S. Árnadóttur á lífshlaupi Ámunda Jónssonar (1738–1805) en sem ungur maður vann hann í vefsmiðjum Innréttinganna í Reykjavík, sem var einstakt átak til að breyta atvinnuháttum landsmanna. Hann siglir síðan til Kaupmannahafnar og dvelur þar í þrjú ár sem aðstoðarmaður í Sívalaturni og forframast í því handverki sem leggur grunn að lífsverki hans síðar, en hann mun m.a. hafa smíðað þrettán kirkjur um ævina. Hann náði einnig afar mikilli færni í tréskurði, í svonefndum síðbarokk-akantus stíl, sem sjá má í kirkjugripum hans á borð við altaristöflur og skírnarfonta í kirkjum á Suðurlandi, svo og í Þjóðminjasafni Íslands.
Lífshlaup Ámunda er efniviður í verkum Guðrúnar sem hér ber fyrir augu en hún byrjaði leitina að sögunni fyrir rúmum tveimur árum, fyrst af forvitni um myndlist fyrri alda og síðan af ákafa yfir því sem í ljós kom við leitina.
Vatnslitamyndirnar sem nú prýða samnefnda bók Lífsverk – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar, átti í fyrstu einungis að vera lítil sýningarskrá með nokkrum myndum og stuttum texta en er nú orðin að heilli bók sem tekur rannsóknarefnið Ámunda Jónsson föstum tökum í orðum og myndum.
Nýjar rannsóknir hafa leitt í ljós að barnadauði á Íslandi hafi verið mestur í álfunni á þessum tíma og markað djúp spor þjáningar í þjóðarsálina. Af nítján börnum Jóns Gunnlaugssonar og Þuríðar Ólafsdóttur, foreldra Ámunda, létust þrettán, og Ámundi og Sigríður kona hans misstu tvö af átta börnum sínum. Þessar aðstæður eru Guðrúnu hugleiknar og hún hefur reynt að nálgast þá tilfinningu sem fjölskyldan undir Eyjafjöllum kann að hafa búið við og þannig fengið samhengi í táknmál trúarinnar. Þrettán reifabörn, látnu börnin, liggja í fjallshlíðinni við bæinn en á gagnstæðum vegg sjáum við að þau eru orðin að englum og vonarglæta vöknuð um eilíft líf á himnum. Þrettán kirkjur, afrek Ámunda, eru skráð á spjöld sögunnar og vekja með okkur aðdáun og virðingu sem hann á svo sannarlega skilið.
Verkin sem Guðrún sýnir hér í Hallgrímskirkju eru ákveðin niðurstaða sem hún varpar fram. Áherslan er á samhengið í lífi almúgafjölskyldu undir Eyjafjöllum og þess myndmáls sem trúin beitir til að koma skila-boðum sínum á framfæri. Skilaboðum sem kristallast í fæðingunni, voninni og fórninni. Spurningum er einnig varpað fram um tímann og raunverulegan lífsferil okkar í rými alheimsins og gerð tilraun til að koma mannlegum afköstum til skila með formum.
Verkaskrá:
1. Þrettán reifar.
Olía á hörstriga.
170 x 120 cm.
2. Fjölskylda Jóns Gunnlaugssonar og Þuríðar Ólafsdóttur í Steinum undir Eyjafjöllum 1740. Ámundi litli í fangi móður sinnar.
Olía á hörstriga.
170 x 150 cm.
3. Lífsferill, hringsól í kringum sólina.
Olía á hörstriga.
170 x 150 cm.
4. Þrettán hliða form.
Olía á hörstriga.
170 x 150 cm.
5. Þrettán kirkjur .
Olía á hörstriga.
170 x 150 cm.
6. Þrettán englar.
Olía á hörstriga.
170 x 120 cm.
Um listamanninn:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1958. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974–78, École nationale supérieure des Beaux-Arts í París 1978–79 og Akademie der Bildenden Künste í München 1979–83 þar sem hún hlaut hin virtu útskriftarverðlaun bæverska sambandslýðveldisins, Bayerischer Debütanten Förderpreis für Künstler und Publizisten. Guðrún hefur haldið sýningar hér heima, í Evrópu og Bandaríkjunum og hlotið fjölda viðurkenninga, bæði fyrir myndlist sína og störf á sviði nýsköpunar en hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum, stofnað og rekið myndlistarskólann RÝMI og listrænu hönnunarstofuna Kunst & Werbung / Art & Advertising sem hún rak í Þýskalandi og hér á landi um árabil. Guðrún stofnaði einnig og rak umhverfisvefinn Náttúran.is um tíu ára skeið en hún hefur verið í framvarðasveit fyrir umhverfisfræðslu á Íslandi frá því að hún sneri aftur heim til Íslands árið 2000. Vefurinn hlaut m.a. Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis og auðlindaráðuneytisins 2012. Aðalefniviður í myndlist Guðrúnar er olía á striga en hin stóru málverk hennar byggjast á sterkum hugmyndafræðilegum og oft sögulegum grunni. Verk hennar er að finna í opinberum söfnum hér á landi og erlendis.