Í norðurgangi Sundhallar Selfoss stendur nú yfir sýning á átta vatnslitamyndum sem eru hluti hugmyndavinnu fyrir verkið „Kafarann“ sem Guðrún hefur nú gefið sveitarfélaginu Árborg til uppsetningar í suðurgangi sundlaugarbyggingarinnar.
Opnunartími: mán.-föst. 6:20-21:30 og 09:00-19:00 um helgar.
Stærð vatnslitamynda: 32x24 cm.
Stærð ramma: 40x50 cm.
Á skýringarspjaldi stendur:
„Hugmyndin vaknaði þegar allt lokaðist í Covid, líka sundlaugin á Selfossi. Áður en laugin lokaði vegna heimsfaraldursins fór ég daglega í sund. Fyrir mér er sund stór hluti af mínu daglega lífi og hrein og klár nauðsyn. Ég byrjaði að vinna úr því að vera innilokuð heima í heimsfaraldri og úr varð engill sem kafar í djúpið í leit að svörum. Þannig fékk ég eins konar útrás fyrir þörfina fyrir vatnið og um leið varð engillinn eins konar persónugerving hjálpar til að komast út úr þessum heimsfaraldri. Engill sem gæti bjargað málunum ef hann finnur veiruna og skilur hvernig hægt sé að eyða henni. Einhvern veginn var það svo augjóst að við erum eins viðkvæm og allar aðrar lífverur í þessum heimi og að í raun sé allt eins. Ein lítil veira gæti eytt okkur og breytt öllum okkar vonum og draumum um ókomna framtíð.
Vatnslitamyndirnar á sýningunni eru aðeins lítill hluti þeirra pælinga sem ég vann áður en að ég ákvað að mála stærra verk byggt á þessari hugmynd.“