Eftir fjögurra vikna dvöl í Skelinni - lista- og fræðimannasetri Þjóðfræðistofu í Hólmavík hélt Guðrún sýningu á afrakstri vinnu sinnar í austursal Galdrasafnsins á Ströndum. Sýningin samanstóð af skissum, teikningum og vatnslitamyndum í kringum þemað ættartengsl og kynslóðaskipti.
Ættartengsl og kynslóðaskipti
Hvaðan komum við og hvert er hlutverk okkar í þessari jarðvist?
Þessi spurning er sígild og verður örugglega aldrei svarað með neinni vissu. Leitin að svarinu er þó órjúfanlegur hluti af því að vera manneskja og tilheyrir daglegu lífi flestra okkar.
Iðkun trúarbragða er ein leið til að leita svara við þessari stóru spurningu frá degi til dags. En það er hægt að spyrja tilvistarspurninga á ýmsa vegu. Ég hef verið að leita svara, skoða mynstur, tölur og form sem tengjast forfeðrum mínum og formæðrum, fólkinu sem bjó mig til og er leitin fólgin í því að skoða aftur fyrir mig, rýna í ættartré og nálgast fólkið mitt í gegnum gögn úr Íslendingabók.
Ástæðan fyrir þessari nálgun minni er að ég finn fyrir mikilli nálægð við fyrri tíma og hef það á tilfinnigunni að mitt sjálf sé aðeins að hluta til á færi mínu að móta áfram, hinn hlutann, hið flókna erfðamengi sem ég er samansett úr stjórnar mér einnig að miklu leiti. Ég hef það á tilfinningunni að ég hafi fengið minningar um liðna tíma í arf. Lífsbarátta forfeðra minna og mæðra eru hluti af mér og það er ég að skoða með þessari rannsóknarvinnu í teikningum, tölvugrafík og vatnslitamyndum. Ferlinu er ekki nándar nærri lokið enda eru myndirnar á þessari litlu sýningu í Austurhúsi Galdrasafnsins í raun aðeins örlítill hluti af ótal hugmyndum fyrir stærri verk sem ég vonast til að vinna í olíu á striga í stóru formati í framhaldinu.
Skissur og teikningar Guðrúnar í kringum þemað ættartengsl og kynslóðaskipti. Sýnt í austursal Galdrasafnsins á Ströndum.
Gestir skoða skissur og teikningar Guðrúnar í kringum þemað ættartengsl og kynslóðaskipti í austursal Galdrasafnsins á Ströndum.
Skissur og teikningar Guðrúnar í kringum þemað ættartengsl og kynslóðaskipti. Sýnt í austursal Galdrasafnsins á Ströndum.
Vatnslitaskissur Guðrúnar í kringum þemað ættartengsl og kynslóðaskipti. Sýnt í austursal Galdrasafnsins á Ströndum.