Guðrún opnaði sýninguna INNÍ / INSIDE í nýju Þjóðgarðsmiðstöð Snæfellsjökulþjóðgarðs á Hellissandi laugardaginn 13. janúar sl. Sýningin mun standa til 24. apríl. Opið er á opnunartíma Þjóðgarðsmiðstöðvarinnar eða daglega frá kl. 10:00 til 16:00.
Verkin sem hér eru sýnd voru unnin með það í huga að kafa ofan í jörðina, jarðsöguna og efnisheiminn, vitna í siðmenninguna og skoða verksummerki tímans. Ég rugla jarðlögum og minjum meðvitað til að spyrja spurninga. Jörðin er uppspretta allra gæða og hún tekur þau aftur til sín í eilífri hringrás þar sem við erum bæði mikilvægur og ómerkilegur þáttur.
Um hugmyndina:
Upphaflega hugmyndin að verkinu vaknaði þegar ég keyrði Ísafjarðardjúp í júní 2023, á leið í strandhreinsun á Hornströndum og var alveg gáttuð yfir þessari rauðu rönd í berginu sem sást víða þar sem sprengt hafði verið fyrir vegagerð. Ég fór að kynna mér málin og komst að því að rauða röndin stafar af því að á Íslandi ríkti hitabeltisloftslag fyrir um 6-7 milljónum árum þar sem pálma- og bananatré og annar hitabeltisgróður þakti landið en við miklar hamfarir oxideraðist þetta efni og steingerðist eða sameinaðist gosefnum og fékk þennan rauða lit.
Hop jökulsins gerir rauðu röndina sýnilega:
Nálægð mín við jökulinn, stórkostlegar steindir og ís í landvörslunni í Vatnajökulsþjóðgarði sumarið 2023 hafði mikil og sterk áhrif á mig svo ég var að vinna úr því að jökullinn hafi lagst yfir allt, hopað og vaxið á víxl en sé svo að hopa aftur. Það merkilega er að rauða röndin sést núna vel á Suðausturlandi, t.d. við Þröng upp að Breiðamerkurjökli en þar hefur jökullinn hopað gríðarlega og rauða röndin er nú orðin vel sýnileg í berginu við rætur Fellsfjalls.
Um hugmyndina:
Verkið grundvallast á því að tefla saman menningarminjum ýmissa tímabila, s.s. ströngum formum sem tilheyra nútíma eða framtíð annars vegar og tilvitnun- um í aldagömul meistaraverk úr íslenskri listasögu hins vegar. Jarðlögum er ruglað og jarðnesk gæði moldar, eðalsteina, málma og öskulaga takast á í eilífu flæði fastra og fljótandi efna.
Strókurinn og fjölin:
Á altaristöflu úr Búðakirkju, mjög illa farinni og sem geymd er í Þjóðminjasafninu má sjá strók eða vafning sem heillaði mig svo að ég notaði formið í verkið en þessi vafningur og þýðing hans er áhugaverð. Sennilega á hann að tákna ferðalag vitringanna þar sem á honum eru þrjár gylltar kórónur. Fjölin er aftur á móti eitt af meistaraverkum Ámuna Jónssonar og varð að fá að vera með.