Sýning Guðrúnar Tryggvadóttur „Uppruni / Source“ opnaði í Gallerí Gangi þ. 19. janúar sl. Sýningin átti að standa til 21. febrúar en hefur verið framlengd til 4. apríl nk. Smellið á „Skoða“ hér að neðan til að skoða nokkur verkanna á sýningunni.
Með titlinum „Uppruna“ er átt bæði við viðfangsefni og efnistök en sýningin samanstendur af hugmyndavinnu um uppruna sem slíkan auk þess sem um upprunaleg verk, fyrstu skrásetningar hugmynda í efni er að ræða. Vinnuaðferðir Guðrúnar byggjast að miklu leiti á því að vinna með innsæi, drauma og tilfinningar á skipulegan hátt og leitast þannig við að myndgera tíma og uppruna efnisheimsins þ.m.t. manneskjunnar.
Guðrún nam við Myndlista- og handíðaskóli Íslands, École Nationale Supérieure des Beaux-Arts í París og Akademie der Bildenden Künste í München. Hún sýndi og starfaði síðan á Íslandi um skeið og síðan í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Guðrún flutti aftur til Íslands um aldamótin og hefur mestan hluta þess tíma starfað við hönnun og nýsköpun en á undanförnum árum snúið sér aftur að frjálsri myndlist.
Gallerí Gangur / The Corridor Rekagranda 8, 107 Reykjavík. Hringið á undan ykkur í síma 696 8797 til að skoða sýninguna eftir opnun.
Nánar um Ganginn:
Árið 1980 opnaði Helgi Þorgils Friðjónsson lítið sýningarými á heimili sínu sem hann kallaði Gallerí gang og hefur „Gangurinn“ verið starfandi æ síðan eða í 36 ár. Markmiðið með rekstrinum er að kynna myndlistarmenn og aðra fyrir nýjum erlendum listamönnum. Fjölmargir erlendir myndlistarmenn hafa sýnt hjá Helga og margir hverjir hafi komið aftur til Íslands ýmist til þess að sýna eða sem almennir ferðamenn. Auk þess sýna íslenskir listamenn í Ganginum í boði Helga.
Níu formæðrapælingar ásamt galleristanum Helga Þorgils Friðjónssyni.