Krosskirkja í Austur Landeyjum hefur verið endurgerð að miklum hluta og smíðaverk því að mestu nýtt en Guðrún hefur séð um val á litum í samráði við Magnús Skúlason hjá Minjastofnun. Verkefni sem þessi krefjast sagnfræðigrúsks og virðingar fyrir efnis- og litavali þess tíma sem kirkjan var byggð á en altari og altaristafla frá 17. og 18. öld eru burðarstólparnir.
Verkefni:
Að velja liti í nýuppgerða Krosskirkju, þ.m.t. veggi, bita og stuttbita, loft þ.e. reitarhvelfingu, milliloft og framloft, súlur, pírála, predikunarstól, bekki og bekkjar- brúður, grátur og annan umbúnað.
Markmið:
Að tengja saman gömlu altaristöfluna og altarið við nýja litapalettu þannig að heildstæð mynd haldist og skerpt verði á áherslunni á altarið og umhverfi þess.Tekið verði tillit til eldri lita og leitast við að halda í það sem að vel var gert og bæta við nýjum tónum sem rýma vel við það sem fyrir er.
Grunnhugmyndin er að altaristafla, altari, loft og predikunarstóll sem eru í dökkum litum spili saman sem einskonar þrenningarheild og allt annað er í frekar ljósum og dempuðum litum og heitir og kaldir litir fá að spila saman og allir frumlitirnir fá rými og tilgang.
Verkefnið er á því stigi að málun er langt komin og lýkur haustið 2021.