Ákall- Challenge – sjálfbærnishugtakið í myndlist
.....Listaverkin á sýningunni tengjast öll orðræðunni um sjálfbærni og þeim siðferðilegu málefnum er tengjast þeirri vinnu sem stuðlar að þróun í átt að sjálfbærni. Sjálfbærni felur í sér umhverfislega, hagræna og félagslega þætti sem skarast. Breytingar innan hvers þáttar hafa alltaf áhrif í öðrum. Þróun getur bara verið sjálfbær ef hún virðir efnahags-, samfélags- og umhverfisþætti. Það er mikilvægt að hafa í huga þann arð sem sameiginlegar auðlindir gefa af sér. Auðlindirnar þarf að vernda og nýta á skynsamlegan hátt. Í sjálfbæru samfélagi rýra bætt kjör okkar ekki kjör annarra eða draga úr möguleikum þeirra til að bæta kjör sín. Til þess að stuðla að sjálfbæru samfélagi verðum við að vinna að því að ekki sé gengið á náttúruauðlindir.
....Sýningin Ákall veitir sýningargestum tækifæri til íhugunar og skapar forsendur fyrir ágreiningi. Þannig grafa verkin undan fullyrðingum sem almennt eru taldar algildar án þess beinlínis að benda á röksemdir til að draga þær í efa. Með þessu móti verður Listasafn Árnesinga vettvangur til að: hreyfa við fólki, skapa svigrúm til að fjalla um þá spennu sem ríkir í heiminum og sýna verk sem tengjast reynslu sýningargesta. (Ásthildur Björg Jónsdóttir)
Verk Guðrúnar Tryggvadóttur á sýningunni (t.h. í mynd) nefnist Aldaklukka og er fyrsta málverkið í röð málverka um formæður og endurnýjun kynslóðanna. Verkin á veggnum t.v. í mynd eru eftir Hildi Bjarnadóttur.
Aldaklukkan er myndræn framsetning tímans og tilraun til að sýna endurnýjun kynslóðanna í beinan kvenlegg. Formið er klukka, hver hringur er ein öld og einstaklingar kvenleggsins staðsettir á fæðingarári sínu svo langt sem heimildir ná eða aftur til ársins 1685. Næst okkur í tíma er dóttir mín fædd 1988, svo ég 1958, þá móðir mín 1938 og svo koll af kolli aftur og aftur um aldir. Að jafnaði þrjár kynslóðir á öld.